7/17/2020

Ákvarðanir 2012

Ákvarðanir 2012
Endurrit
úr
gerðabók Hæstaréttar
við kjör forseta Íslands
- - -o o o 0 0 0 o o o- - Ár 2012, miðvikudaginn 6. júní, er þing Hæstaréttar sett í dómhúsi réttarins af hæstaréttardómurunum Markúsi Sigurbjörnssyni, Árna
Kolbeinssyni, Eiríki Tómassyni, Garðari Gíslasyni, Gretu Baldursdóttur, Ingibjörgu Benediktsdóttur, Jóni Steinari Gunnlaugssyni, Ólafi
Berki Þorvaldssyni, Viðari Má Matthíassyni og Þorgeiri Örlygssyni og Benedikt Bogasyni og Helga I. Jónssyni settum hæstaréttardómurum.
Hæstarétti hefur borist „kæra vegna undirbúnings forsetakosninga 2012“ frá Hauki Haraldssyni, Kristni Jónssyni, Helenu Hauksdóttur,
Kristni Jónssyni og Ingvari Erni Arnarssyni, sem einnig var beint til innanríkisráðuneytisins og umboðsmanns Alþingis. Í erindi þessu segir
að kært sé „hvernig staðið hefur verið að undirbúningi forsetakosninga 2012 af Yfirkjörstjórnum og Innanríkisráðuneytinu“ og krafist
„leiðréttinga og eða ógildingar kosninganna.“ Kemur fram að tilefnið fyrir þessu erindi sé að innanríkisráðuneytið hafi 1. júní 2012 tilkynnt
Ástþóri Magnússyni Wium að framboð hans til embættis forseta Íslands uppfyllti ekki skilyrði 4. gr. laga nr. 36/1945 um framboð og kjör
forseta Íslands og yrði ekki metið gilt sökum þess að ráðuneytið teldi að ekki hafi verið lögð fram gögn um að aflað hafi verið nægilegs
fjölda meðmælenda með framboðinu. Í niðurlagi erindisins segir að krafist sé að ákvörðun þessi verði dregin til baka, en til vara að Ástþóri
Magnússyni Wium verði veittur tíu daga frestur til að „afla nýrra meðmælenda í stað þeirra sem sannarlega hafi verið falsaðir á
meðmælendalistum og Yfirkjörstjórnir yfirfari viðbótarnöfnin án tafar og gefi út vottorð, og Innanríkisráðuneytið staðfesti löglegt framboð
hans.“ Verði þetta ekki tekið til greina og gengið til kosninga telji kærendur brotið á sér „og okkar frambjóðanda“ og sé það „brot á
mannréttindum og forsetakjörið þar með ógilt.“
Fyrir liggur að innanríkisráðherra gaf út auglýsingu 1. júní 2012, þar sem fram kemur að sex nafngreindir menn séu í kjöri til embættis
forseta Íslands við kosningar 30. sama mánaðar.
Í 2. gr. laga nr. 36/1945 kemur fram að undirkjörstjórnir og yfirkjörstjórnir við forsetakjör séu þær sömu og við alþingiskosningar, en auk
þeirra hafi Hæstiréttur þau störf með höndum, sem segi í lögunum. Þau störf felast nánar tiltekið í fyrsta lagi í því að Hæstiréttur tekur við
gögnum frá innanríkisráðuneytinu um framboð við forsetakjör og auglýsingu þess um hverjir séu í kjöri, sbr. 4. gr. laganna. Í öðru lagi
úrskurðar Hæstiréttur samkvæmt 2. mgr. 7. gr. laganna um hvort fresta þurfi forsetakjöri vegna andláts forsetaefnis og undirbúa kjör að nýju.
Í þriðja lagi ber Hæstarétti að halda sérstaka gerðabók um málefni vegna forsetakjörs, sbr. 8. gr. laganna. Í fjórða lagi tekur Hæstiréttur
samkvæmt 11. gr. laganna að afstöðnum forsetakosningum við eftirriti úr gerðabókum yfirkjörstjóra og ágreiningskjörseðlum og boðar síðan
forsetaefni eða umboðsmenn þeirra til fundar, þar sem úrskurða skal um gildi ágreiningsseðla, lýsa úrslitum kosninga og gefa út kjörbréf
handa forsetaefni, sem flest atkvæði hefur hlotið, en rísi ágreiningur um kjörgengi forsetaefnis sker Hæstiréttur úr. Í fimmta lagi gefur
Hæstiréttur samkvæmt 12. gr. laganna út kjörbréf þegar að liðnum framboðsfresti handa forsetaefni, sem reynist vera eitt í kjöri. Í sjötta lagi
ber réttinum samkvæmt 13. gr. laganna að senda eftirrit af kjörbréfi til forseta Alþingis og þess ráðherra, sem fer með málefni forseta Íslands.
Loks tekur Hæstiréttur samkvæmt 2. mgr. 14. gr. laganna við kærum um „ólögmæti forsetakjörs“, öðrum en refsikærum, og leysir úr þeim, en
þær verða að berast í síðasta lagi fimm dögum fyrir fund samkvæmt 11. gr. laganna.
Af framangreindri talningu verður ráðið að ekki er í lögum nr. 36/1945 að finna heimild til að beina til Hæstaréttar erindi af því tagi, sem að
framan er lýst. Kærunni er því vísað frá Hæstarétti.
Endurrit
úr
gerðabók Hæstaréttar
við kjör forseta Íslands
- - -o o o 0 0 0 o o o- - Ár 2012, miðvikudaginn 25. júlí, er þing Hæstaréttar sett í dómhúsi réttarins af hæstaréttardómurunum Markúsi Sigurbjörnssyni, Árna
Kolbeinssyni, Eiríki Tómassyni, Garðari Gíslasyni, Gretu Baldursdóttur, Ingibjörgu Benediktsdóttur, Jóni Steinari Gunnlaugssyni, Ólafi
Berki Þorvaldssyni, Viðari Má Matthíassyni og Þorgeiri Örlygssyni og Benedikt Bogasyni og Helga I. Jónssyni settum hæstaréttardómurum.
Hæstarétti barst 13. júlí 2012 ódagsett bréf Ástþórs Magnússonar Wium, Vogaseli 1, Reykjavík, þar sem hann ber fram kæru, sem varðar
lögmæti forsetakjörs 30. júní 2012 samkvæmt 2. mgr. 14. gr. laga nr. 36/1945 um framboð og kjör forseta Íslands. Í kærunni er þess krafist að
Hæstiréttur lýsi forsetakosningarnar ógildar vegna þriggja atriða, sem tengjast því að kærandinn hugðist samkvæmt gögnum málsins bjóða

https://www.haestirettur.is/akvardanir/2012/

1/5

Select target paragraph3