7/17/2020 Ákvarðanir 2012 sig fram, en innanríkisráðuneytið tilkynnti honum með bréfi 1. júní 2012 að framboð hans yrði ekki metið gilt. Kæran er í fyrsta lagi reist á því að yfirkjörstjórn Norðvesturkjördæmis hafi 22. maí 2012 gefið út vottorð, þar sem tekin hafi verið gild meðmæli úr Vestfirðingafjórðungi með framboði kærandans. Þetta vottorð hafi yfirkjörstjórnin afturkallað með bréfi 25. sama mánaðar með vísan til þess að við nánari athugun hennar á meðmælendalistum kærandans úr Vestfirðingafjórðungi hafi komið fram að flestir þeir, sem þar voru skráðir og spurðir voru, hafi ekki kannast við að hafa ritað nafn sitt á slíka lista og væru því brostnar forsendur fyrir vottorðinu. Kærandinn byggir á því að yfirkjörstjórninni hafi ekki verið heimilt að afturkalla stjórnsýsluákvörðun um að gefa út vottorðið 22. maí 2012 nema að uppfylltum skilyrðum 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þeim skilyrðum hafi ekki verið fullnægt í þessu tilviki og sé því ógild ákvörðun yfirkjörstjórnarinnar 25. sama mánaðar um afturköllun vottorðsins. Í öðru lagi er kæran reist á því að ákvörðun innanríkisráðuneytisins 1. júní 2012 hafi byggt á ólögmætum sjónarmiðum. Ráðuneytið hafi þar stuðst við ákvörðun yfirkjörstjórnar Norðvesturkjördæmis 25. maí 2012 um afturköllun vottorðsins frá 22. sama mánaðar, svo og að yfirkjörstjórnir annarra kjördæma hafi gefið út vottorð til kærandans með fyrirvara um gildi undirskrifta á meðmælendalistum með framboði hans. Á þessu hafi ráðuneytið ekki mátt byggja, enda hafi rannsókn ekki farið fram á undirskriftum á meðmælendalistunum. Í þriðja lagi hafi yfirkjörstjórn Norðvesturkjördæmis farið út fyrir verksvið sitt samkvæmt 4. gr. laga nr. 36/1945 þegar hún hafi staðið að könnun á meðmælendalistum kærandans með því að hringja í menn, sem þar voru skráðir. Með þessu hafi yfirkjörstjórnin jafnframt brotið gegn persónuvernd þeirra, sem hringt var í, en frekari rannsókn hafi ekki verið gerð á ætlaðri fölsun undirskrifta og sé ljóst að ekki verði við kærandann sakast vegna slíks athæfis. Hæstiréttur gaf innanríkisráðuneytinu og yfirkjörstjórn Norðvesturkjördæmis kost á að koma á framfæri athugasemdum vegna kærunnar, svo og þeim sex frambjóðendum, sem voru í kjöri við forsetakosningarnar 30. júní 2012. Athugasemdir bárust frá ráðuneytinu, yfirkjörstjórninni og frambjóðandanum Ólafi Ragnari Grímssyni. Frambjóðendurnir Ari Trausti Guðmundsson, Hannes Bjarnason og Þóra Arnórsdóttir lýstu því bréflega að þau teldu ekki tilefni til athugasemda vegna kærunnar, en frambjóðendurnir Andrea Jóhanna Ólafsdóttir og Herdís Þorgeirsdóttir létu hana ekki til sín taka. Kærandanum var gefinn kostur á að tjá sig um þessar athugasemdir, sem hann neytti með bréfi 22. júlí 2012. Samkvæmt 4. gr. laga nr. 36/1945 skal sá, sem býður sig fram við forsetakjör, afhenda innanríkisráðuneytinu ekki síðar en fimm vikum fyrir kjördag gögn um nægilega tölu meðmælenda með framboði sínu, svo og vottorð yfirkjörstjórna um að þeir séu kosningabærir. Við gerð slíks vottorðs getur yfirkjörstjórn ekki látið við það sitja að staðreyna það eitt hvort meðmælendur með framboði séu á kjörskrá, heldur verður hún einnig að gæta meðal annars að því hvort fyrirliggjandi gögn gefi tilefni til að efast um að þeir, sem sagðir eru meðmælendur, hafi sjálfir ritað undir yfirlýsingu um það. Sé svo verður yfirkjörstjórn að bregðast við með frekari athugun. Fram er komið að yfirkjörstjórn Norðvesturkjördæmis taldi við könnun á meðmælendalistum með framboði kærandans að ástæða gæti verið til að ætla að undirskriftir á þeim kynnu að vera falsaðar og greip hún af því tilefni til þess ráðs að hringja til skráðra meðmælenda úr Vestfirðingafjórðungi. Í athugasemdum innanríkisráðuneytisins til Hæstaréttar segir að þessir meðmælendur hafi verið 77 talsins og hafi 53 þeirra ekki kannast við að hafa ritað nafn sitt á meðmælendalista með framboði kærandans, 11 hafi staðfest undirritun sína, en til annarra hafi ekki náðst. Vegna þess fjölda manna, sem könnuðust ekki við að hafa ritað undir meðmælendalistana, taldi yfirkjörstjórnin sýnt að kærandinn hafi ekki náð þeirri tölu meðmælenda í fjórðungnum, sem áskilin var í auglýsingu forsætisráðuneytisins 15. mars 2012, sbr. 5. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 3. gr. laga nr. 36/1945. Eins og atvikum var háttað var ekki þörf á frekari rannsókn. Taka ber fram að í málatilbúnaði kærandans hefur efnisleg niðurstaða yfirkjörstjórnarinnar ekki verið vefengd. Vegna þess galla, sem samkvæmt þessu var á framboði kærandans, var yfirkjörstjórn Norðvesturkjördæmis rétt samkvæmt 2. tölulið 25. gr. stjórnsýslulaga að afturkalla að eigin frumkvæði ákvörðun frá 22. maí 2012 um að gefa út vottorð um að tilskilinn fjöldi kosningabærra manna í Vestfirðingafjórðungi hefði mælt með framboðinu, enda var sú ákvörðun ógildanleg. Því til samræmis var innanríkisráðuneytinu skylt að hafna framboði kærandans, svo sem gert var 1. júní 2012. Samkvæmt öllu framangreindu verður hafnað kröfu Ástþórs Magnússonar Wium um að Hæstiréttur lýsi forsetakosningarnar 30. júní 2012 ógildar. Endurrit úr gerðabók Hæstaréttar við kjör forseta Íslands - - -o o o 0 0 0 o o o- - Ár 2012, miðvikudaginn 25. júlí, er þing Hæstaréttar sett í dómhúsi réttarins af hæstaréttardómurunum Markúsi Sigurbjörnssyni, Árna Kolbeinssyni, Eiríki Tómassyni, Garðari Gíslasyni, Gretu Baldursdóttur, Ingibjörgu Benediktsdóttur, Jóni Steinari Gunnlaugssyni, Ólafi Berki Þorvaldssyni, Viðari Má Matthíassyni og Þorgeiri Örlygssyni og Benedikt Bogasyni og Helga I. Jónssyni settum hæstaréttardómurum. Hæstarétti barst 18. júlí 2012 bréf Ragnars Aðalsteinssonar hæstaréttarlögmanns, þar sem hann ber fram kæru í þágu Ásdísar Jennu Ástráðsdóttur, Guðmundar Magnússonar og Rúnars Björns Herrera Þorkelssonar, sem varðar lögmæti forsetakjörs samkvæmt 2. mgr. 14. gr. laga nr. 36/1945 um framboð og kjör forseta Íslands. Í kærunni er þess krafist að kjör forseta Íslands í kosningum 30. júní 2012 verði ógilt. I https://www.haestirettur.is/akvardanir/2012/ 2/5

Select target paragraph3