7/17/2020 Ákvarðanir 2012 Samkvæmt kærunni er tilefni hennar einkum það að kjósendum, sem ekki var fært að kjósa með eigin hendi í forsetakosningum 30. júní 2012, hafi ekki verið heimilað að njóta þar liðsinnis aðstoðarmanns að eigin vali, heldur hafi þeim verið gert að fá aðstoð eins af kjörstjórnarmönnum í viðeigandi kjördeild til að rita á kjörseðil. Kjósendum, sem ekki hafi unað þessu, hafi verið meinað að neyta atkvæðisréttar síns. Kærendur telja þessa skipan, sem leiðir af 86. gr. laga nr. 24/2000 um kosningar til Alþingis, brjóta gegn meginreglum um frjálsar, óþvingaðar og leynilegar kosningar og séu lagaákvæði, sem að þessu lúta, andstæð stjórnarskránni. Í kærunni er greint frá því að kærandinn Ásdís sé fötluð og geti ekki kosið með eigin hendi. Við forsetakosningarnar hafi hún krafist þess í kjördeild að fylgdarmaður hennar fengi að veita henni aðstoð við að greiða atkvæði, en því hafi verið hafnað og henni boðið að velja til þess mann úr kjörstjórn. Að endingu hafi verið komist að þeirri málamiðlun að hún fengi aðstoð fylgdarmanns síns til að skrifa á miða nafn þess frambjóðanda, sem hún vildi kjósa, miðinn hafi svo verið afhentur kjörstjórnarmanni inni í kjörklefa og hafi hann merkt við nafnið á kjörseðli. Kærandinn Rúnar sé einnig fatlaður og geti ekki kosið með eigin hendi. Með honum hafi mætt á kjörstað aðstandandi, sem hann hafi viljað láta aðstoða sig við atkvæðagreiðslu, en þeirri ósk hafi verið hafnað og hann því vikið af kjörfundi. Kærandinn Guðmundur sé fatlaður, en hann hafi þó greitt atkvæði í kosningunum með eigin hendi. Í kærunni er vísað til þess að samkvæmt 5. gr. stjórnarskrárinnar skuli forseti Íslands kosinn við beinar og leynilegar kosningar af þeim, sem hafi kosningarrétt til Alþingis. Í lögum nr. 36/1945 séu ekki beinar reglur um framkvæmd forsetakjörs, heldur segi þar í 3. mgr. 6. gr. að um kosningaathöfnina, undirbúning hennar, atkvæðagreiðslu utan kjörstaða og á kjörstað fari eftir lögum um kosningar til Alþingis eftir því, sem við eigi. Þá sé tekið fram í 1. mgr. 14. gr. að ákvæði 114. gr. og XIX., XX., XXIV. og XXV. kafla laga um kosningar til Alþingis gildi um forsetakosningar að svo miklu leyti, sem við geti átt. Þessar tilvísanir laga nr. 36/1945 nái ekki til 3. mgr. 120. gr. laga nr. 24/2000, þar sem fram komi að gallar á kosningum valdi því aðeins ógildingu þeirra að ætla megi að þeir hafi haft áhrif á úrslit kosninganna. Í því sambandi megi einnig líta til þess að í 1. mgr. 11. gr. og 2. mgr. 15. gr. laga nr. 90/2010 um stjórnlagaþing hafi verið ákvæði hliðstæð 3. mgr. 6. gr. og 1. mgr. 14. gr. laga nr. 36/1945, en með ákvörðun Hæstaréttar 25. janúar 2011 hafi kosningar til stjórnlagaþings verið ógiltar án þess að nokkuð hafi bent til að gallar á þeim hafi haft áhrif á niðurstöður. Vegna þeirra atvika, sem áður greinir, hafi þess ekki verið gætt í forsetakosningunum 30. júní 2012 að tryggt væri í framkvæmd að þær væru frjálsar og leynilegar. Þannig nægi það eitt til að ógilda kosningarnar án tillits til þess hvort þessi galli hafi haft áhrif á niðurstöðu þeirra. Kærendur benda á að með 3. mgr. 63. gr. og 86. gr. laga nr. 24/2000 sé vikið frá meginreglu 2. mgr. 63. gr. og 1. mgr. 81. gr. sömu laga um að kjósandi skuli greiða atkvæði sitt í einrúmi og án aðstoðar og þannig leynilega. Fyrrnefndu lagaákvæðin tvö feli nánar tiltekið í sér að kjósandi geti óskað eftir aðstoð til að kjósa ef hann greinir kjörstjóra við utankjörfundaratkvæðagreiðslu eða kjörstjórn á kjörfundi frá því að hann sé ófær um að gera það einn síns liðs vegna sjónleysis eða þess að honum sé hönd ónothæf. Að baki þessu séu þau rök að kjósandi, sem þannig sé ástatt um, yrði að öðrum kosti sviptur kosningarrétti. Á þessum ákvæðum séu á hinn bóginn þeir annmarkar að kjósandi geti við þessar aðstæður eingöngu leitað aðstoðar kjörstjóra eða kjörstjórnarmanns, sem fari með opinbert vald, en með frjálsum og leynilegum kosningum eigi ekki síst að vernda kjósendur fyrir afskiptum valdhafa af því hvernig atkvæði sé varið. Til samanburðar er í kærunni bent á að við framkvæmd kosninga til stjórnlagaþings hafi samkvæmt ákvörðun dómsmála- og mannréttindaráðherra 26. nóvember 2010 verið heimilað að blindir, sjónskertir og þeir, sem ekki hafi getað fyllt út kjörseðil með eigin hendi, fengju að hafa með sér mann að eigin vali til að veita sér aðstoð í kjördeild. Hæstarétti hafi borist kærur vegna þessara kosninga, en þar hafi ekki verið fundið að þessari tilhögun og heldur ekki í ákvörðun réttarins 25. janúar 2011, þar sem kosningarnar voru ógiltar af öðrum ástæðum. Í kærunni er því ítarlega lýst hvernig kærendur telji þá skipan, sem mælt er fyrir um í 86. gr. laga nr. 24/2000, andstæða ýmsum fyrirmælum stjórnarskrárinnar, einkum 5. gr. og 31. gr. um leynilegar kosningar, jafnræðisreglu 1. mgr. 65. gr., ákvæðum 71. gr. um friðhelgi einkalífs og 73. gr. um skoðana-, sannfæringar- og tjáningarfrelsi og banni í 1. mgr. 68. gr. við vanvirðandi meðferð, auk óskráðra meginreglna hennar um sjálfræði manna og meðalhóf. Þessi skipan sé jafnframt andstæð 29. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks frá árinu 2007, sem Ísland hafi gerst aðili að, en kærendur telji þennan samning, sem ekki hefur verið fullgiltur af Íslands hálfu, hafa verið leiddan í innlend lög með breytingu, sem gerð var með lögum nr. 152/2010 á 1. gr. laga nr. 59/1992 um málefni fatlaðs fólks. Þessi skipan sé einnig í andstöðu við 3. gr. 1. viðauka við samning um verndun mannréttinda og mannfrelsis, sbr. lög nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu, svo og reglur um góða starfshætti við kosningar frá svokallaðri Feneyjanefnd Evrópuráðsins. Til þeirra reglna og samningsins um réttindi fatlaðs fólks hafi verið vitnað í dómaframkvæmd mannréttindadómstóls Evrópu, sem sýni gildi þessara heimilda þótt þær kunni að vera óskuldbindandi að alþjóðalögum. Kærendur lýsa þeirri skoðun að Hæstarétti sé við úrlausn um kæruna fært að víkja til hliðar 86. gr. laga nr. 24/2000 á þeim grunni að ákvæðið sé andstætt æðri réttarheimildum í stjórnarskrá og grundvallarreglum stjórnskipunarinnar. Verði og að líta til þess að eftir því, sem skerðing réttinda verði þungbærari, þurfi veigameiri rök að búa að baki henni, en í þessu tilviki hafi ekki verið sýnt fram á nauðsyn hennar. Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga nr. 59/1992 hvíli jafnframt á ríkinu athafnaskylda vegna málefna fatlaðra, sem hafi að auki vegna framkvæmdar kosninga til stjórnlagaþings haft réttmætar væntingar um að réttinda þeirra yrði gætt varðandi aðstoð við kosningar. Í kærunni er einnig fjallað um ákvörðun Hæstaréttar 25. janúar 2011 um ógildingu kosninga til stjórnlagaþings og atvik þar borin saman við þau, sem hér eru uppi. II Hæstiréttur gaf yfirkjörstjórnum í öllum kjördæmum landsins kost á að koma á framfæri athugasemdum vegna kærunnar, svo og þeim sex frambjóðendum, sem voru í kjöri við forsetakosningarnar 30. júní 2012. Að ósk kærenda var innanríkisráðuneytinu jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um kæruna. Athugasemdir bárust frá ráðuneytinu, öllum yfirkjörstjórnum og frambjóðandanum Ólafi Ragnari Grímssyni. Frambjóðandinn Ari Trausti Guðmundsson lýsti því bréflega að hann teldi ekki tilefni til athugasemda vegna kærunnar, en frambjóðendurnir Andrea Jóhanna Ólafsdóttir, Hannes Bjarnason, Herdís Þorgeirsdóttir og Þóra Arnórsdóttir létu hana ekki til sín taka. https://www.haestirettur.is/akvardanir/2012/ 3/5

Select target paragraph3