7/17/2020

Ákvarðanir 2016

Endurrit úr gerðabók Hæstaréttar við kjör forseta Íslands 25. júní 2016 í tilefni af kærum
Miðvikudaginn 15. júní 2016

Endurrit
úr
gerðabók
Hæstaréttar við kjör forseta Íslands
---ooo000ooo---

Ár 2016, miðvikudaginn 15. júní, er þing Hæstaréttar sett í dómhúsi réttarins af hæstaréttardómurunum Markúsi
Sigurbjörnssyni, Benedikt Bogasyni, Eiríki Tómassyni, Gretu Baldursdóttur, Helga I. Jónssyni, Karli Axelssyni og Viðari Má
Matthíassyni og Ingibjörgu Benediktsdóttur og Ingveldi Einarsdóttur settum hæstaréttardómurum.
Hæstarétti hefur borist erindi 8. júní 2016 með yfirskriftinni: „Fyrirhugað kjör forseta Íslands þ. 25. þ.m., lög, reglur og
framkvæmd“ frá Baldri Ágústssyni, sem hér á eftir verður nefndur kærandi, en í niðurlagi erindisins lýsir hann því yfir að hann
kæri „fyrirhugaðar kosningar“ og geri kröfu um „að boðað verði til nýrra kosninga.“ Með því að kærandi vísaði í erindi sínu til
atriða varðandi undirbúning forsetakjörs, sem eiga eftir ákvæðum laga nr. 36/1945 um framboð og kjör forseta Íslands ýmist
undir forsætisráðherra eða innanríkisráðherra gaf Hæstiréttur ráðuneytum þeirra beggja kost á að koma á framfæri
athugasemdum og bárust þær réttinum 13. júní 2016.
Að ákvörðun þessari standa níu af dómurum Hæstaréttar, sbr. 4. mgr. 7. gr. laga nr. 15/1998 um dómstóla.
I
Samkvæmt auglýsingu forsætisráðherra 5. mars 2016 fer kjör forseta Íslands fram 25. júní 2016. Í auglýsingunni var tekið
mið af því að samkvæmt 4. gr. laga nr. 36/1945 beri þeim, sem hafi hug á að gefa kost á sér í forsetakjöri, að skila til
innanríkisráðuneytisins ekki síðar en fimm vikum fyrir kjördag framboði ásamt tilteknum fjölda meðmælenda úr hverjum
landsfjórðungi og vottorðum yfirkjörstjórna um að þeir séu kosningarbærir, sbr. 1. mgr. 3. gr. sömu laga. Vísar kærandi til þess
að innanríkisráðuneytið hafi í tengslum við þetta látið frá sér fara reglur, sem kærandi nefnir svo, og látið þess getið þar að
hver maður mætti aðeins gerast meðmælandi eins frambjóðanda. Hafi þetta valdið þeim, sem hugðu á framboð, vandkvæðum
við söfnun undirskrifta meðmælenda, enda hafi ráðuneytið tekið fram að nöfn þeirra, sem gerðust meðmælendur fleiri en eins
frambjóðanda, yrðu strikuð út af báðum eða öllum meðmælendalistunum. Allmargir sem hafi tilkynnt opinberlega að þeir
hygðust bjóða sig fram hafi ekki náð að safna nægilegum fjölda meðmælenda og því ekki komist í framboð, þar á meðal
kærandi. Í lögum nr. 36/1945 verði ekki fundin regla um bann við því að sami maður gerist meðmælandi tveggja eða fleiri
frambjóðenda. Þótt vísað sé í þeim lögum um ýmis atriði til ákvæða laga nr. 24/2000 um kosningar til Alþingis, sé hvergi í
lögum nr. 36/1945 vitnað til VII. kafla laga nr. 24/2000 eða 3. mgr. 34. gr. þeirra, sem heyri til þess kafla. Regla sem þar sé að
finna um að ekki skuli telja mann, sem gerist meðmælandi fleiri en eins framboðslista við alþingiskosningar, til meðmælenda
nokkurs listans gildi því ekki við forsetakjör. Af þessum sökum telur kærandi að undirbúningur og framkvæmd fyrirhugaðs
forsetakjörs stangist á við lög nr. 36/1945 og rétt sinn, sem varinn sé af ákvæðum stjórnarskrárinnar, til að gefa kost á sér í
kjörinu. Því geri hann þær kröfur sem áður var getið.
Í athugasemdum, sem innanríkisráðuneytið beindi til Hæstaréttar í tilefni af framangreindu erindi, er byggt á því að það leiði
af 3. mgr. 6. gr. laga nr. 36/1945 að ákvæði laga nr. 24/2000 um meðmælendur við alþingiskosningar gildi um önnur atriði við
forsetakjör en þau sem beinlínis sé mælt fyrir um í fyrrnefndu lögunum. Vegna þessa gildi 3. mgr. 34. gr. laga nr. 24/2000, sem
áður var getið, sbr. einnig 2. mgr. 33. gr. sömu laga, um forsetakjör. Í athugasemdum forsætisráðuneytisins var efnislega vísað
til þess sem innanríkisráðuneytið lét frá sér fara af þessu tilefni.
II
Samkvæmt 2. gr. laga nr. 36/1945 eru undirkjörstjórnir og yfirkjörstjórnir við forsetakjör þær sömu og við alþingiskosningar,
en auk þeirra skal Hæstiréttur hafa með höndum þau störf, sem mælt er fyrir um í lögunum. Þau störf felast nánar tiltekið í
fyrsta lagi í því að Hæstiréttur tekur við gögnum frá innanríkisráðuneytinu um framboð við forsetakjör og auglýsingu þess um
hverjir séu í kjöri, sbr. 4. gr. laganna. Í öðru lagi úrskurðar Hæstiréttur samkvæmt 2. mgr. 7. gr. laganna um hvort fresta þurfi
forsetakjöri vegna andláts forsetaefnis og undirbúa kjör að nýju. Í þriðja lagi ber Hæstarétti að halda sérstaka gerðabók um
málefni vegna forsetakjörs, sbr. 8. gr. laganna. Í fjórða lagi tekur Hæstiréttur samkvæmt 11. gr. laganna að afstöðnum
forsetakosningum við eftirriti úr gerðabókum yfirkjörstjórna og ágreiningskjörseðlum og boðar síðan forsetaefni eða
umboðsmenn þeirra til fundar, þar sem úrskurða skal um gildi ágreiningsseðla, lýsa úrslitum kosninga og gefa út kjörbréf
https://www.haestirettur.is/akvardanir/2016/

1/17

Select target paragraph3