7/17/2020 Ákvarðanir 2011 Ákvarðanir 2011 Endurrit úr gerðabók Hæstaréttar 25. janúar 2011 ---ooo000ooo--Kærur Óðins Sigþórssonar (sjálfur) Skafta Harðarsonar og (sjálfur) Þorgríms S. Þorgrímssonar (Esther Hermannsdóttir hdl.) vegna kosningar til stjórnlagaþings Ákvörðun Hæstaréttar Samkvæmt 4. mgr. 7. gr. laga nr. 15/1998 um dómstóla fjalla um framangreindar kærur hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Árni Kolbeinsson, Gunnlaugur Claessen, Jón Steinar Gunnlaugsson, Páll Hreinsson og Viðar Már Matthíasson. Óðinn Sigþórsson, Skafti Harðarson og Þorgrímur S. Þorgrímsson kærðu kosningar til stjórnlagaþings, sem fram fóru 27. nóvember 2010, með kærum 8., 9. 16. og 27. desember 2010 sem bárust réttinum 10., 13., 15. og 27. desember 2010. Krafist er ógildingar kosninganna. Kæruheimild er í 15. gr. laga nr. 90/2010 um stjórnlagaþing. Mál kærenda voru sameinuð með ákvörðun Hæstaréttar 6. janúar 2011 þar sem þau lúta öll að almennri framkvæmd kosninganna og varða ekki sérstaka hagsmuni þeirra að lögum. Samkvæmt 1. mgr. 15. gr. laga nr. 90/2010 rann kærufrestur út tveimur vikum eftir að nöfn hinna kjörnu fulltrúa voru birt í Stjórnartíðindum, en það var gert með auglýsingu nr. 929/2010 í B-deild Stjórnartíðinda 3. desember 2010. Hæstarétti bárust tvær kærur frá Skafta Harðarsyni en önnur þeirra, sem barst réttinum 27. desember 2010, laut að kjörgengisskilyrðum Andrésar Magnússonar. Þar sem kærufrestur var þá liðinn samkvæmt 1. mgr. 15. gr. laga nr. 90/2010 kemur sú kæra ekki til meðferðar fyrir Hæstarétti. I Kosning til stjórnlagaþings fór fram á grundvelli laga nr. 90/2010. Í almennum athugasemdum við frumvarp það er varð að lögum nr. 90/2010 segir að ráðgert sé að stjórnlagaþing hafi tímabundið og afmarkað hlutverk sem sé að endurskoða og gera tillögur um breytingar á stjórnarskrá lýðveldisins. Með þessu sé brugðist við þeirri aðstöðu að ekki hafi tekist, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir undanfarna áratugi og yfirlýsingar nær allra stjórnmálaflokka um að breytinga sé þörf, að ljúka þeirri heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar sem stefnt hafi verið að árið 1944. Sé tillögum þingsins ætlað að vera ráðgefandi fyrir Alþingi og skuli frumvarp sem stjórnlagaþing samþykkir sent Alþingi til meðferðar. Þá segir að frumvarpið geri ráð fyrir því að fulltrúar á stjórnlagaþingi verði kosnir persónukosningu og gerðar séu tillögur um ítarlegar reglur varðandi framkvæmd persónukjörsins sem miði að því að endurspegla vilja kjósenda eins vel og unnt sé, þar sem jafnframt sé stuðlað að jöfnu hlutfalli kynjanna eins og kostur er í hópi þingfulltrúanna. Séu í frumvarpinu sérreglur um kjörgengi fulltrúa á þingið, en ráðgert sé að sömu skilyrði gildi um það og kjörgengi til Alþingis, með þeirri undantekningu þó að forseti Íslands, alþingismenn, varamenn þeirra og ráðherrar séu ekki kjörgengir. Með þessu sé stefnt að því að tryggja að þingið vinni sjálfstætt að tillögum sínum gagnvart Alþingi og öðrum handhöfum ríkisvalds og án beinnar aðkomu fulltrúa þessara handhafa. Ástæða þess að efnt sé til stjórnlagaþingsins sem starfi þannig við hlið Alþingis sé einmitt að skapa nýjan vettvang fyrir endurskoðun stjórnarskrárinnar í ákveðinni fjarlægð frá stjórnmálaflokkum og fulltrúum þeirra á Alþingi. II Kosningar til stjórnlagaþings fóru fram 27. nóvember 2010. Í auglýsingu nr. 929/2010 frá landskjörstjórn um úrslit kosninga til stjórnlagaþings, 27. nóvember 2010, sem birt var í B-deild Stjórnartíðinda 3. desember 2010, gerði landskjörstjórn kunnugt að 25 frambjóðendur hefðu náð kjöri sem þjóðkjörnir fulltrúar til stjórnlagaþings í kosningunum. Þeir voru Andrés Magnússon, Ari Teitsson, Arnfríður Guðmundsdóttir, Ástrós Gunnlaugsdóttir, Dögg Harðardóttir, Eiríkur Bergmann Einarsson, Erlingur Sigurðarson, Freyja Haraldsdóttir, Gísli Tryggvason, Guðmundur Gunnarsson, Illugi Jökulsson, Inga Lind Karlsdóttir, Katrín Fjeldsted, Katrín Oddsdóttir, Lýður Árnason, Ómar Þorfinnur Ragnarsson, Pawel Bartoszek, Pétur Gunnlaugsson, Salvör Nordal, Silja Bára Ómarsdóttir, Vilhjálmur Þorsteinsson, Þorkell Helgason, Þorvaldur Gylfason, Þórhildur Þorleifsdóttir og Örn Bárður Jónsson. https://www.haestirettur.is/akvardanir/2011/ 1/14

Select target paragraph3