7/17/2020 Ákvarðanir 2011 Eins og áður segir eru kærur Skafta Harðarsonar, Óðins Sigþórssonar og Þorgríms S. Þorgrímssonar byggðar á 15. gr. laga nr. 90/2010. Þar segir að ef kjósandi telji fulltrúa á stjórnlagaþingi skorta kjörgengisskilyrði, framboð hans hafi ekki uppfyllt skilyrði laga eða kjör hans sé af öðrum ástæðum ólögmætt, geti hann kært kosningu hans til Hæstaréttar sem skeri úr um gildi hennar. Þykir bera að skilja málatilbúnað kærenda svo að krafist sé ógildingar kosninga á öllum framangreindum fulltrúum til stjórnlagaþingsins á grundvelli ástæðna sem nánar verður vikið að hér á eftir og þeir telja að leiði til þess að kosning fulltrúanna hafi verið ólögmæt. Hæstiréttur óskaði eftir því með bréfi 20. desember 2010 að landskjörstjórn og dómsmála- og mannréttindaráðuneytið tjáðu sig um framkomnar kærur. Svör þeirra bárust 22. desember 2010 og var þá kærendum og hinum kjörnu fulltrúum á stjórnlagaþingi veitt færi á að tjá sig um málið. Svör bárust frá Óðni Sigþórssyni og Þorgrími S Þorgrímssyni 3. og 4. janúar 2011. Af hálfu hinna kjörnu fulltrúa á stjórnlagaþingi lét Gísli Tryggvason einn málið til sín taka og bárust svör hans 3. janúar 2011. Kærendum voru kynnt viðhorf hans 4. janúar 2011. Þá voru landskjörstjórn og innanríkisráðuneytinu, sem tekið hafði við málaflokknum frá 1. janúar 2011, kynnt andsvör kærenda við greinargerð þeirra með bréfi 4. janúar 2011. Kærendum var boðið að gera grein fyrir viðhorfum sínum í munnlegum málflutningi sem fram fór 12. janúar 2011. Óðinn Sigþórsson og Skafti Harðarson þekktust boðið. Þá gerði landskjörstjórn og innanríkisráðuneytið grein fyrir afstöðu sinni til málsins. Hinum kjörnu fulltrúum á stjórnlagaþingi var einnig gefinn kostur á að tjá sig um málið og það nýttu sér Gísli Tryggvason og Þorkell Helgason. Bréf barst frá formanni landskjörstjórnar 13. janúar 2011 þar sem leiðréttur var misskilningur sem upp hafði komið við munnlegan málflutning og var í bréfinu afdráttarlaust tekið fram að kjörseðlar hefðu verið númeraðir í samfelldri og hlaupandi talnaröð. Var kærendum, innanríkisráðuneyti og kjörnum fulltrúum á stjórnlagaþingi gefinn kostur á að tjá sig um þetta bréf. Bárust svör frá öllum þeim sem látið höfðu málið til sín taka fyrir Hæstarétti þar sem jafnframt var lýst afstöðu til annarra gagna málsins. Farið var í vettvangsgöngu í Laugardalshöll 14. janúar 2011 og skoðað það húsnæði sem landskjörstjórn notaði við talningu atkvæða. Þá var farið yfir það verklag sem viðhaft var við talninguna og hverjir fengið höfðu að vera viðstaddir hana. III Hér á eftir verður stuttlega vikið að þeim málsástæðum og lagarökum sem kærendur telja að leiða eigi til ógildingar kosninga til stjórnlagaþings sem fram fóru 27. nóvember 2010. 1. Í kæru Þorgríms S. Þorgrímssonar er að því fundið að kjörseðlar hafi verið auðkenndir með strikamerki og númeri á bakhlið og er því haldið fram að þetta sé andstætt bæði skráðum og óskráðum meginreglum um að kosningar skuli vera leynilegar. Í bréfi til Hæstaréttar 3. janúar 2011 tekur lögmaður hans fram að kjörseðlarnir hafi verið merktir strikamerki og einnig númeraðir. Seðlunum hafi verið dreift til kjördeilda í númeraröð og séu þeir því rekjanlegir úr hvaða kjördeild þeir komi. Þá hafi þeir væntanlega einnig verið afhentir kjósendum í númeraröð. Þá segir svo í bréfinu: „Vitað er til þess að í sumum kjördeildum hafa kjörstjórnir við kosningar skráð nöfn kjósenda á lista jafnóðum og þeir kjósa. Með slíkan lista í höndum og númeraröðina væri t.d. hægt að rekja atkvæði til einstakra kjósenda.“ Þá er því haldið fram að heimild 2. mgr. 10. gr. laga nr. 90/2010 taki eingöngu til þess að heimilt hafi verið að strikamerkja kjörseðlana en ekki að númera þá. Hinn 5. janúar 2011 var Þorgrímur inntur nánar eftir því í hvaða kjördeildum skráð hefðu verið nöfn kjósenda og númer afhentra atkvæðaseðla. Í bréfi lögmanns hans 10. janúar 2011 kom fram að Þorgrímur kvaðst vita til þess að þetta verklag hefði verið viðhaft en hefði ekki upplýsingar um hvaða kjördeildir eða kjörstjórnir væri um að ræða. Í bréfi lögmanns Þorgríms 11. janúar 2011 til Hæstaréttar er tekið fram að ekki sé rétt að kjósendum hafi verið afhentir kjörseðlar af handahófi, heldur hafi þeir verið áframhaldandi í númeraröð. Fráleitt sé að reikna með því að undirkjörstjórnir hafi farið að „stokka“ seðlana, enda engin fyrirmæli gefin um að slíkt ætti að gera. Það þýði þá að ef einhver kjörstjórnarmaður eða annar hafi haldið til haga upplýsingum um í hvaða röð kjósendur komu þá hafi verið hægt að rekja saman einstaka kjósendur og einstaka seðla. Fullyrðir Þorgrímur, sem átti sæti í kjördeild við kosningarnar, að það sé þekkt verklag í kosningum að tveir kjörstjórnarmenn skrái í kjörskrá en sá þriðji búi til nafnalista sem sé notaður til að stemma af færslurnar í kjörskrá og síðan hent og því ekki meðal formlegra gagna sem skilað sé áfram til yfirkjörstjórna. Þetta ættu þeir að þekkja sem unnið hafa í kjördeildum. 2. Þá kærir Þorgrímur S. Þorgrímsson einnig að kjósendur hafi verið sviptir rétti til að kjósa í annarri kjördeild. Samkvæmt 2. tölul. 2. mgr. 80. gr. laga nr. 24/2000 um kosningar til Alþingis, sbr. 1. mgr. 11. gr. laga nr. 90/2010 um stjórnlagaþing, eigi kjósandi að geta afsalað sér kosningarétti í kjördeild þar sem hann er heimilisfastur og fengið að kjósa í kjördeild þar sem hann er staddur. Fyrirmæli hafi hins vegar komið frá landskjörstjórn eða ráðuneyti um að þetta væri ekki í boði við kosningu til stjórnlagaþings. 3. Bæði Þorgrímur S. Þorgrímsson og Óðinn Sigþórsson kæra að hefðbundnir kjörklefar hafi ekki verið notaðir við kosningarnar heldur hafi hver kjósandi setið við borð í opnu rými og greitt atkvæði ásamt öðrum kjósendum en á því voru 60 sm há pappaskilrúm, sem sett voru á þrjár hliðar borðs til að skilja að kjósendur. Slíkum skilrúmum hafi síðan verið raðað upp hlið við hlið. Útilokað sé annað en að kjósendur hafi getað kíkt á kjörseðil næsta kjósanda, t.d. þegar þeir stóðu upp frá borði eftir að hafa fyllt út eigin kjörseðil eða gengið fyrir aftan annan kjósanda og horft yfir öxl hans. Þeir telja þennan umbúnað vera ótvírætt brot á 1. mgr. 69. gr. laga nr. 24/2000, sbr. 1. mgr. 11. gr. laga nr. 90/2010, en þar sé kveðið svo á um að kjörklefi skuli þannig búinn að þar megi greiða atkvæði án þess að aðrir geti séð hvernig kjósandi kýs. Telja kærendur að kosningarnar hafi ekki verið leynilegar af þessum sökum. Þá vísa kærendur til 81. gr. laga nr. 24/2000, sbr. 1. mgr. 11. gr. laga nr. 90/2010, þar sem fram komi að þegar kjósandi hafi tekið við kjörseðli fari kjósandi með hann inn í kjörklefann, þar sem hann megi einn vera og að borði því er þar stendur. Í bréfi til Hæstaréttar 3. janúar 2011 áréttar lögmaður Þorgríms S. Þorgrímssonar að af ákvæðum laga nr. 24/2000, þar sem fjallað sé um kjörklefa, komi fram að kjósandi fari inn í kjörklefa, þar megi hann einn vera, inni í kjörklefanum standi borð, þar sé hægt að kjósa í einrúmi og að ef kjósandi þurfi aðstoð þá skuli hún veitt í kjörklefanum. Þá er vísað á bug skýringum innanríkisráðuneytis og landskjörstjórnar um það af hverju ekki var hægt að notast við hefðbundna kjörklefa. Þótt fyrirkomulag kosninganna hafi kallað á fjölgun kjörklefa hafi með lítilli fyrirhöfn verið hægt að fjölga þeim enda séu þeir bæði einföld og ódýr mannvirki. https://www.haestirettur.is/akvardanir/2011/ 2/14

Select target paragraph3